Um sköpunarþrá mannsins

Grein eftir Daða Guðbjörnsson

Það ætti auðvitað ekki að skrifa grein um sköpunina og enn síður að gera tilraun til að réttlæta skrifin, hvorki með vísindalegum eða röklegum hætti. En þegar einhver er búinn að vinna við listsköpun frá því elstu menn muna, þá er það örugglega góðs viti að sá maður sé enn þá að baksa við eitthvað sem hann ætti að láta ógert.

Ég hef stundað Sahajayoga í meira en áratug og fundið jákvæðar beytingar bæði á sál og líkama. Við þá djúpu slökun sem verður þegar slökkt er á síbylju hugsananna virðist taugakerfið endurhlaða sig, ekki ósvipað því þegar maður endurræsir tölvu.

Þegar það er fullyrt að sahaja yoga sé frábrugðið öllu öðru, sem verið er að bjóða upp á í hinum andlega geira, er gjarnan spurt um hvað sé svona sérstakt og einnig er spurt hvort hugleiðslan hafi haft áhrif á listsköpun mína. Við þessum spurningum er ekki til einfalt svar, en eftir mikla reynslu þykir mér mjög aðkallandi að gera tilraun til að svara þessum spurningum.

Það er auðvelt fyrir flesta að finna streymið (vibrations) í sahaja yoga sem verður hluti af raunveruleikanum eða skynjuninni, en þegar maður fer að hugleiða reglulega er auðvelt að komast þangað sem maður fer að tengjast og finna fyrir hinum fínlega krafti sem er að baki söpunarverkinu. Í sahaja yoga finnur maður fyrir taugakerfinu á nýjan hátt. Það sem maður finnur er kallað „the subtle system“, oft kallað tré lífsins í andlegum fræðum, en það sem maður skynjar og finnur á eigin skinni, er mikilvægara en það sem maður lærir vitsmunlega.

Leiðsögn í Sahaja Yoga er öll unnin í sjálfboðavinnu og fylgir hefðbundnum hugmyndum um andlegar hreyfingar af þessu tagi. Það eru engir peningar í spilinu og engar skuldbindingar lagðar á meðlimi aðrar en að stunda hugleiðslu og hlusta á andan í brjóstinu.

Ég vona að þessi grein svari að einhverju leyti þeim spurningum sem oft koma upp. Það sem kemur fram í þessari grein eru mínar hugleiðingar, því það er ekki hugmyndafræði í sahaja yoga, sahaja yoga er fyrst og fremst aðferð til að finna guðdóminn og hið innra sjáf, aðferð til að finna andan í hjartanu, hið raunverulega sjálf, og skilja sjálfan sig, án truflana frá fortíð og framtíð eða áður fenginni vitneskju. Sahaja yoga er ekki hugmyndakerfi eða réttrúnaður, sem allir í hópnum þurfa að samþykkja. Einnig vil ég taka fram að fyrir þá, sem hafa upplifað „turia“ ætti hugleiðsla og hugleiðingar ekki að vera sami hluturinn, eins og oft er talað um í vestrænni hefð.

Turia upplifun hefur mjög góð áhrif hugann, þar sem hún er ekki aðferð sem notar heilann sjálfan til að breyta einhverju í sálarlífinu, líkt og t.d. hugræn atferlismeðferð. En hugsunarlausa ástandið kemur jafnvægi á hugann og dempar ýmis óþægindi, svo sem kvíða og dregur úr óþægindum frá óuppgerðum málum úr fortíðinni.

Það rifjaðist upp fyrir mér nýlega að hafa lesið um andleg málefni sem ungur maður, m.a. svokallaðan spíritisma, og var ég upplýstur um að hann væri ekki mjög heillavænlegur ef maður vildi ná andlegum þroska. Einnig hafði móðir mín sagt mér að hún hefði haft kynni af andaglasi og ýmsu kukli og varaði mig eindregið við að prófa slíkt. Ég hef því ekki persónulega reynslu af t.d. dáleiðslu eða miðilsfundum. Ég lenti þó eitt sinn hjá spákonu í heimahúsi fyrir tilviljun. Hún sagði mér hluti sem síðar hafa komið fram, en ég tel þó að þannig vitneskja hjálpi manni lítið. Ég prófaði að leggja stund á eina tegund hugleiðslu en uppskar ekkert annað en höfuðverk, sem lét ekki á sér kræla eftir að ég hætti hugleiðsluni, nema þegar ég fann ilm af reykelsi þá kom alltaf höfuðverkur. Ég er þó laust við þetta óþol gagnvart reykelsi núna.

Ég held að það sé rétt að taka fram að mitt álit er að margt af því sem er verið að gera í þessum svokallaða andlega geira er ekki endilega hollt eða heillavænlegt fyrir þá sem meðtaka meint fagnaðarerindi. Ein algengasta sjálfsblekkingin á Vesturlöndum er að við getum fengið einhverja örvun fyrir sköpunargáfuna í gegnum áfengi og fíkniefni. Shri Mataji Nirmala Devi, stofnandi sahaja yoga, hefur gefið þá skýringu á fíkn okkar að efnin líki eftir tengingunni við andann, þó sú tenging sé ekki sambærileg við upplifun á „turia“ og aukaverkanirnar af áfengi og eiturlyfjum séu mjög skaðlegar, en aftur á móti eru áhrif frá, „turia“ mjög jákvæð og heillavænleg fyrir einstaklinginn.

Ástæðan fyrir því að þetta er rifjað upp er sú staðreynd að eftir seinna stríð hefur komið til Vesturlanda mikill fjöldi svokallaðra gúrúa frá Indlandi, til að fylla inn í tómarúm á Vesturlöndum þar sem fólk er mjög upptekið af efnishyggju, en hér eru margar einlægar leitandi sálir rétt eins og annars staðar. Þessir leitandi einstaklingar leggja gjarnan allt andlega sviðið að jöfnu, en staðreyndin er sú að margir þessara svokölluðu gúrúa eru það sem kallast “tantrikas”, einstaklingar sem eru að vinna með hinn guðlega kraft sér til framdráttar, en ekki til að þroskast andlega og verða betri manneskjur. Þetta er t.d. að magna upp kraft í vöðvum til að lyfta mikilli þyngd, sem getur síðan leitt til hjartaáfalls, en hefur ekkert með andlegan þroska að gera, oft eru þeir að plokka peninga af fólki eða vilja stunda kynlíf án frekari skuldbindinga. Þó eru vissulega ekki allir gúrúar undir þessa sök seldir.

Allt frá því að mannapinn fór að vinna með verkfærum, rétta úr sér og hafa fasta búsetu, virðist eins og hann hafi farið að þróa með sér einhvers konar tilfinningu fyrir fegurð og vilja hafa huggulegt í umhverfi sínu, sennilegast finnst mér að það sé til þess að búa til hvata að einhverri andlegri upplifun, sem hann hafði þrá til að finna. Það var eitthvað sem hann saknaði úr umhverfinu þegar hann var úti í villtri náttúruni þar sem dýrin lifa öll í sátt við lögmál Guðs. Meðal dýra hefur þessi fegurðarþörf ekki þróast á sama hátt að því er virðist, enda hafa þau ekki sagt skilið við skilyrðislausa hlýðni við lögmál náttúrunnar og guðs, eins og maðurinn. Í sköpunarkenningum margra trúarbragða má finna þá fullyrðingu að sköpunin sé tjáning Guðs og þannig er öll sköpun komin frá Guði.

Maðurinn hefur hæfileika til að líkja eftir þessari tjáningu Guðs, maðurinn er æðsta sköpunarverk hans. Sköpunin er í raun eitthvað sem gerist sjálfkrafa eða ætti að vera sjálfsprottin ef maðurinn er í sambandi við skapara sinn; annars er um einhvers konar áreynslu eða kvöð að ræða, sem er í raun ekki sköpun heldur endurtekning á því sem áður hefur verið gert, stöðnun. Við erum ekki meðvituð um þetta samband okkar við alheimsvitundina og þess vegna höldum við að við séum skapa eitthvað, en við fáum inblástur frá alheimsvitundinni (Guði), þess vegna er nauðsynlegt að rækta sambandið við hana. Til að rækta það samband þarf maður að losna við hugsanir og skilyrðingar eða fyrirfram gefnar hugmyndir um hvernig list sé, hugmyndir eða skilyrðingar sem eru á floti í heilabúinu, en við þurfum að komast lengra inn í vitund án hugsanna, “turia” eða “dhyana”, það leiðir mann inn í “samadhi” og gefur manni sjálfsþekkingu og tengingar við alheimsvitundina.

Mér vitanlega er sahaja yoga eina aðgengilega aðferðin fyrir venjulegt fólk að komast í „dhyana“. Fólk virðist fæðast með misjafnlega góða tengingu við uppsprettu sköpunarinnar, en sköpunin er að mínum skilningi á bak við hugann og oftast kallað innsæi í vestrænni hefð. Góður félagi sem byrjaði nokkuð nýlega að stunda sahaja yoga og á erfitt með að skilja þær útskýringar sem fara fram á ensku, en þær eru reyndar ekki aðalatriðið í sahaja yoga, hann sagði við mig einu sinni: „Ég skil þetta inni í mér“, en það er einmitt aðferðin sem er affarasælust bæði í sköpun og hugleiðslu.

Allt sem tengist fræðum og kenningum er ekki aðalatriðið í sköpun, en mjög gagnlegt tæknilega séð og jafnvel skemmtilegt, því er engin ástæða til sniðganga það. En það sem við finnum í sahaja yoga er að kundalini streymir um taugakerfið; þannig að við finnum fyrir taugakerfinu, bæði sjálfráða hluta taugakerfisins og einnig þeim ósjálfráða. Þetta streymi um sálarlífið/taugakerfið kemur á jafnvægi sem leiðir til andlegs þroska, þannig að maður fær nýja sýn á lífið. Annar ávinningur af ástundun sahaja yoga er bætt heilsa, en það verður ekki tekið til umfjöllunar hér. Jákvæð áhrif hugleiðslu á líkamlega heilsu eru þó mælanleg. Þau hafa verið könnuð af vísindamönnum og hefur verið sýnt fram á fylgni þar á milli.

Þegar ég lauk námi í Myndlista- og handtíðaskólanum (MHÍ) var það sannfæring mín að það ætti að láta tilfinningarnar ráða ferðinni í listsköpun og að búið væri að gera nóg af myndlist með rökhugsun að vopni.Þessi skoðun helgaðist af því að ég hafði ekki fundið mig í þeim farvegi, þ.e.a.s. Nýlistadeildinni. Það var sú deild sem ég valdi mér sem starfsvettvang í MHÍ. Margar hugmyndir sem ég kynntist á þessum árum koma heim og saman við þá innsýn sem hugleiðslan hefur veitt mér í sköpunarferlið.

Ég hafði einhverjar hugmyndir um að þar væri verið að vinna með hugtakalist (conceptual art) en ég var ekki viss um hvað það var þegar ég hóf þar nám, enda eflaust verið ungur maður sem var upptekinn af sjálfum sér. Það spilaði einnig inn í að málaradeildin þótti mér of gamaldags, það sama gilti um margar af hinum deildunum líka, en Nýlistadeildin virtist ung og fersk eins og listinni finnst að hún eigi að vera.

Upplifunin í „Nílhestadeildinni” var þó mjög gjöful og þar hafði ég kennara sem höfðu mikill árif á mig með einum eða öðrum hætti. Ólafur Lárusson hafði kennt mér í forskóla. Hugmyndir hans um að maður mætti ekki vera svona „mental“ heldur ætti listamaðurin að vera „spontant“ þóttu mér mjög gagnlegar, en þetta var líka mantra hjá Jóni Gunnari Árnasyni, ef ég man rétt.

Sá mikli rithöfundur, Guðbergur Bergsson, sem var eins og brunnur fullur af þekkingu og sköpun, hvatti til sjálsprottinna vinnubragða. Hann var annars ekki mikið að gefa fyrirmæli, ef ég man rétt, en veitti innsýn í það hver væri rétta aðferðin sem ætti að nota, án þess að hægt sé að útskýra það nákvæmlega. Hann hefur hvatt til einhvers sem eflaust mætti kalla ljóðrænar eða expressjónískar tilraunir. Atli Heimir Sveinsson miðlaði einnig miklum fróðleik og var mikil fyrirmynd fyrir mig.

Það var þó Dieter Roth sem var stóra fyrirmyndin, enda vel þekktur myndlistarmaður sem var forvitnilegt að kynnast, mikill handverksmaður sem gat látið handverkið fá nýja merkingu í gegnum óvenju frjóa sköpunargáfu. Hann snerti líka mjög margar hliðar á listinni sem væri of langt mál þylja upp hér. Þessir listamenn eiga það að mínu mati sameiginlegt að sköpunargáfan tengdist þessari uppsprettu, en skynsemin var eingöngu notuð til að framkvæma og styðja framkvæmdina, góðir listamenn að mínu áliti.

Magnús Pálsson hélt hópnum saman enda mikill listamaður og deildin hefði ekki verið eins og hún var án hans. Hann leit á kennsluna sem listgrein sem er auðvitað alveg rétt afstaða. Ég hef kynnst fleiri listamönnum, sem virðast geta haldið þessari gátt guðdómsins opinni, þó þeir hafi kannski ekki verið neitt sérstaklega meðvitaðir um að þessi tenging væri við guðdómin, enda ekki nauðsynlegt að vita það.

Það er búið að flækja pólitík og peningum í listina sem aldrei fyrr, en útskúfa guðdómnum sem sennilega hefur verið samtvinnaður listinni frá upphafi. Stór hópur fólks spáir eingöngu í listina sem fjárfestingu og verðmiðinn er hjá mörgum listrænn mælikvarði. Listamenn þurfa vissulega að lifa og vinnan við gerð verkanna er uppspretta tekna fyrir listamaninn rétt eins og annars staðar í mannheimum. En flestir listamenn sleppa að mestu við spákaupmenskuna sem er í gangi í heimi peninganna.

Annar hópur fólks vill endilega að listin hjálpi við að bæta heiminn með því að tvinna inn í hana pólitískan boðskap og reyna þannig að hafa áhrif á skoðanir fólks, þetta er kannski ekki slæmur tilgangur en því miður tekst það misjafnlega vel til. Sjálfur er ég draumóramaður þar sem ég vil að listin sé til þess að næra sálarlíf mannsins, vekja í honum andann sem býr í hjartanu og færa þannig mannkynið til hærri vitundar.

Andinn er í vestrænum samfélögum gjarnan tengdur við hugann og hugsunina, en „andinn“ er að mínu áliti raunverulegt sjálf mannsins líkt og Jung talaði um og staðsettur annarstaðar í hírarkíinu. Andinn er nokkuð sem er manninum hulið áður en hann öðlast sjálfsvitundar-vakningu og er á annari bylgjulengd en hugurinn. Þessi hugmynd um andann er þó ennþá vel þekkt í austurlöndum fjær, og kannski víðar. Á vesturlöndum trúa menn á að fá hjálp frá anda látinna eða töframátt vínanda og vilja láta hvorutveggja hjálpa sér við upplyftingu sálarinnar, einnig við sköpun lista. Það er sannfæring mín að hinir raunverulegu spámenn trúarbragðanna, voru á móti slíkum ferðalögum inn í huliðsheima spíritisma. Þessir kimar eru ekki leiðin að hinu innra sjálfi okkar sem býr í hjartanu, ekki leiðin að raunveruleikanum og sannleikanum

Nútímalistin á okkar tímum einkennist af mikilli fjölbreytni bæði í efnistökum og innihaldi. Það eru þó aðallega tvær stórar línur: Hin vitsmunalega og sú tilfinningalega. Þetta eru ekki endilega ósættanlegar andstæður, þó ýmsum tegundum af pólitíkusum, fræðimönnum og sölumönnum henti vel að nýta sér hina óumflýjanlegu og nauðsynlegu umræðu sér til framdráttar.

Algengast er að tala um appoloníska og dýonísíska fegurð sem eins konar andstæður, þetta er hluti af samskiptahefð sem stjórnast af samkeppni. Auðvitað ætti að nota báðar þessar hliðar sköpunarinnar í góðu jafnvægi, sem leit að einhverju háleitu eða til að svala þrá eftir andlegum þroska. Við þurfum jafnvægi á milli þessara þátta. Listheimurinn er kannski oftar en ekki á höttunum eftir einhverju sem getur vakið athygli; jafnvel þó neikvæð athygli sé.

Hugmyndir um hvar uppsprettuna sé að finna eru ólíkar og ég þekki þær ekki nægjanlega til að gera grein fyrir þeim, en menn eins og Mihaly Csikszentmihalyi hafa leitt okkur í sannleikan um mikilvægi sköpunar fyrir einskaklinginn og þá hamingju þegar maðurinn dvelur uppnuminn í núi sköpunarinnar, en í raun gerir Csikszentmihalyi ekki tilraun til að úskýra uppsprettuna sjálfa svo ég viti.

Eins og áður hefur komið fram, erum við ekki að tala um hugann þegar við erum að fást við hið andlega, hugurinn og andin eru tvær aðskildar víddir. Það má vel hugsa sér að abstraktlist eigi sér bakland í hugmyndinni um hið andlega sem er formlaust og ekki hluti af efnisheiminum, þó að andinn geti vissulega haft áhrif inn í efnisheimin. Miðað við að bakgrunnur margra abstraktmálaranna á fyrrihluta 20. aldar var í andlegum fræðum, mætti leiða getur að því að þeir hafi ætlað að hjálpa fólki að ná auknum andlegum þoska með verkum sínum. Þannig mætti hugsa sér að sá hópur sem einfaldaði formið hafi verið að gefa okkur mynd að „uppljómun“ eða „enlightenment“. En þeir sem fóru ljóðrænu leiðina hafi verið að vísa okkur veginn; búa til mandölur eða myndrænar bænir.

Brahma samkvæmt yoga fræðunum er sú hlið guðdómsins sem framkvæmir sköpunina bæði efnislega og svo sér hann okkur fyrir fagurfræðilegri upplifun. Nútímamaðurinn á gott með að skynja og skilja þrívídd, en fjórða víddin er sköpunin. Þar erum við farin að hafa áhrif á formið, með fagurfræðina og sköpunargáfuna sem verkfæri. Það greinir okkur frá dýrunum. Bhrama er á Indlandi kallaður sá sem er fæddur af sjálfum sér, hann er ekki áberandi í hindúisma, ef ég veit rétt þá er aðeins eitt Bhrama hof á Indlandi, sem ekki hefur þó komið í veg fyrir sköpun stórfenglegra listaverka, trúarlegra ljóða og texta, arkitektúrs og tónlistar.

Maðurinn er auðvitað hluti af náttúrunni og allt sem hann gerir er með einum eða öðrum hætti eftiröpun af náttúrunni eða því sjálfsprottna og úrræðagóða ferli sem náttúran notar, en á bak við hlýtur að vera einhvert afl eða þrá. Listamaðurinn er að reyna að líkja eftir þessu ferli náttúrunnar; það hefur gerst í auknu mæli hjá mér tel ég, eftir að ég fór aðstunda sahajayoga, en manni virðist oft að listin sé mest gefandi þegar hún er í góðu sambandi við hið náttúrulega ferli, sem er aðferð guðdómsins.