Shri Mataji Nirmala Devi er fædd 21. mars, 1923 í Chindwara, í Madhya Pradesh héraði á Indlandi. Móðir hennar, Cornelia Salve, var fyrsta konan á Indlandi til að hljóta heiðursnafnbót í stærðfræði. Faðir hennar, Shri Prased Rao Krishnan Salve, var afkomandi hinnar konunglegu Shalivahana ættar. Hann hafði á valdi sínu fjórtán tungumál og þýddi Kóraninn yfir á Hindi/Marathi. Hann var ötull baráttumaður fyrir sjálfstæði Indlands og náinn samstarfsmaður Mahatma Ghandi. Eftir að Indland hlaut sjálfstæði var hann kosinn á þing og hjálpaði við að semja fyrstu stjórnarskrána.

Shri Mataji gekk fyrst í hefðbundinn indverskan Sabarmati Ashram skóla.  Hún eyddi töluverðum tíma í nærveru Ghandi en á sjöunda aldursári flutti hún í uppeldisbúðir hans. Hin unga Nirmala lærði mikið af honum en gaf honum góð ráð í staðinn í andlegum viðfangsefnum og hjálpaði við bænahaldið. Strax frá unga aldri bjó Shri Mataji yfir fullkomnu valdi á kúndalíní orkunni og þar með meðfæddri vitneskju um innra orkukerfi mannslíkamans. Til að þróa þá vitneskju betur og geta aðlagað hana að nútíma samfélagi lagði hún fyrir sig læknisfræði og sálfræði í Kristilega læknaskólanum í Lahore.

Baráttan fyrir sjálfstæði Indlands

Á námsárum sínum í læknisfræði tók Shri Mataji virkan þátt í sjálfstæðisbaráttu Indlands, en varð að hætta námi vegna stjórnmálalegrar þátttöku sinnar. Fjölskyldan hennar lék einnig stórt hlutverk í þeirri baráttu. Faðir hennar var náinn vinur og samstarfsmaður Gandhi og á þessum árum varð fjölskyldan hennar að færa miklar fórnir, einnig fjárhagslegar í þágu þeirrar baráttu. Foreldrar hennar þurftu margsinnis að taka út fangelsisvist. Faðir hennar sat t.d. inni í ein tvö og hálft ár og sjálf þurfti hin unga Shri Mataji að sæta pyntingum af hálfu lögreglunnar. Í hjarta sínu vissu þau engu að síður að þessar tímabundnu fórnir voru nauðsynlegur þáttur í frelsis- og sjálfstæðisbaráttu Indlands.

Hjónaband

Skömmu áður en Indland hlaut sjálfstæði kvæntist Nirmala Sir Chandika Prasad Srivastava. Hann var einn af kunnustu og skeleggustu embættismönnum Indlands og hafði verið aðlaður (sæmdur Riddarakrossinum) af Englandsdrottningu. Hann var þegar þekktur fyrir trúmennsku og heiðarleika og komst fljótt til æðstu metorða. Frá 1964-66 var hann skipaður aðstoðarritari forsætisráðherra Shri Lal Bahadur Shastri og síðar kosinn aðalritari alþjóðlegu flotadeildar Sameinuðu þjóðanna, sem átti höfuðstöðvar sínar í London og hélt þeirri stöðu í 16 ár. Allan þennan tíma stóð Shri Mataji dyggilega við hlið eiginmanns síns, annaðist heimilið og ól upp tvö börn. Þó að Shri Mataji hefði frá blautu barnsbeini rannsakað leiðir til að fylgja köllun sinni eftir fylgdi hún henni ekki eftir fyrir alvöru fyrr en hún hafði rækt skyldu sína sem húsmóðir og uppalandi.

Sahaja Yoga

Árið 1970 kom Shri Mataji Nirmala Devi fram á sjónarsviðið með Sahaja Yoga sem hugleiðsluaðferð. Hún hjálpaði fólki á einfaldan hátt að öðlast sjálfsvitundarvakningu (kúndalíní vakningu), sem leiðir til hins fullkomna hugleiðsluástands – þekkt sem Nirvichar Samadhi eða hugsanalaus meðvitund. Hún hjálpaði fólki án endurgjalds og áréttaði að sjálfsvitundarvakning væri fæðingarréttur allra. Næstu fjörtíu ár ferðaðist hún um allan heim og kenndi hugleiðslu. Hún var elskuð og dáð sem andlegur leiðtogi, framúrskarandi ræðumaður og einkennandi var hversu mildileg hún var í leiðsögn sinni.

Óháð kynþætti, trú, aldri eða stöðu hafa milljónir venjulegs fólks nú lært að nýta sér eigin innri andlegan kraft. Menn öðlast vald til að finna jafnvægi í lífinu. Arfur Shri Mataji lifir áfram í meira en 100 löndum hjá sjálfboðaliðum sem kenna öðrum tækni hennar. Í anda þess sem hún kenndi, munu þeir sem hafa fengið hjálp, hjálpa öðrum eins og kviknar ljós af ljósi.